Rebekka Sif
  • Forsíða
  • Rithöfundur
  • Söngkona
  • Söngkennari
  • Bókanir
Rebekka Sif Stefánsdóttir (f. 1992) er rithöfundur og ljóðskáld. Hún lauk B.A. gráðu í almennri bókmenntafræði árið 2017 og MA gráðu í ritlist við Háskóla Íslands árið 2020. Hún er aðstoðarritstjóri Lestrarklefans og hefur í síðustu ár skrifað þar ógrynni bókmennta-umfjallana. Hún starfar einnig sem stundakennari í ritlist við Háskóla Íslands.

Fyrsta ljóðabók Rebekku, Jarðvegur, kom út haustið 2020 í samstarfi við bókaútgáfu Blekfjelagsins en ljóðabókinni var fagnað fyrir vönduð og áhrifamikil ljóð um sáran fósturmissi. Vorið 2022 kom svo út hennar fyrsta skáldsaga, Flot, hjá bókaforlaginu Króníku. Flot er margslungin skáldsaga þar sem margt dvelur undir yfirborðinu. Hún fékk afbragðsdóma í Morgunblaðinu, Tengivagninum á Rás 1, Vikunni og Lestrarklefanum. Sumarið 2022 kom út hennar önnur skáldsaga, Trúnaður, sem hljóð- og rafbók hjá Storytel. Trúnaður fjallar um brothætt og flókin sambönd fimm ólíkra vinkvenna. Bókin var á topplistanum yfir vinsælustu hljóðbækurnar í tæplega þrjá mánuði sumarið og haustið 2022 og fékk góðar viðtökur frá hlustendum og lesendum á Storytel. 


Picture
Einnig hafa smásögur eftir Rebekku birst í ýmsum safnritum, meðal annars smásagnasafninu Möndulhalla (Una útgáfuhús, 2020) og Jólabókum Blekfjelagsins. Hún hefur þáttarstýrt tveimur hlaðvörpum Blekvarpinu, hlaðvarpi meistaranema í ritlist og Bókamerkinu, hlaðvarpi Lestarklefans. ​
Picture

Gling Gló
​
(Króníka 2022)

Picture

Trúnaður (Storytel, 2022)

Picture

Flot
​(Króníka, 2022)

Picture

Jarðvegur
​(Blekfjelagið 2020)

Hægt er að kaupa bækur beint af höfundi hér. 
Picture

Trúnaður

Fimm vinkonur með ólíkan bakgrunn og væntingar.
Það er komið að saumaklúbbi og vinkonurnar fimm sem hafa þekkst síðan í menntaskóla hafa allar ólíkar væntingar til kvöldsins. Í aðdraganda saumaklúbbsins fylgjumst við með þeim undirbúa sig og setja á sig grímuna fyrir kvöldið. Draugar fortíðar banka upp á og uppgjörið er óumflýjanlegt. Vinkonuhópurinn verður aldrei samur.

​„Sagan grípur lesandann frá upphafi og ég átti erfitt með að leggja hana frá mér. Trúnaður er stórgóð skáldsaga sem kemur verulega á óvart.“
-
★★★★ Sólrún Lilja Ragnarsdóttir, Morgunblaðið. 
​
„Sturlað góð! Spændi hana í mig eins og heitum rétti í fermingarveislu! Mæli 2000% með!“

Kolbrún Ósk Skaftadóttir

„Algjörlega mögnuð saga og karakterarnir mjög trúverðugir! Lesturinn skemmtilega tvinnaður saman og hélt mér fastri. Ekki auðvelt að taka sér pásu frá þessari bók!“
Ingibjörg Guðlaug Jónsdóttir
Picture

Flot

Flotið mun gera mig hamingjusama. Leysa vandamál mín, þurrka út minningarnar, strauja allar misfellur lífsins.
Þegar Fjóla byrjar að stunda flot að ráði sálfræðings á hún ekki von á því að enda sem starfsmaður hjá Reykjavík Float. Flotið verður miðpunkturinn í lífi hennar, rétt áður en það byrjar hægt og rólega að liðast í sundur. Vandamálin byrja að fljóta upp úr djúpinu og raunveruleikaskynjunin fer úr skorðum. Hvernig getur Fjóla haldið sér á floti þegar hún þarf að horfast í augu við fortíðina?
​
„Frásögnin er ljóðræn og höfundur vandar sig við að lýsa því sem máli skiptir svo snilldarlega að lesandinn finnur fyrir lýsingunni djúpt inni í sínum eigin kjarna.“
Ragnhildur Þrastardóttir, Morgunblaðið

„Rebekka hefur skrifað skáldsögu sem erfitt er að skilja við – samofin frásögn með hliðarsnúningum til fortíðar og nútíðar sem skapar mjög ánægjulega lestrarupplifun. Ég fagna nákvæmni, einlægni og viðkvæmni höfundar og bíð spennt eftir næstu skáldsögu.“
Victoria Bakshina, Lestrarklefinn

„Það er sterkur heildarsvipur yfir sögunni og sögumannsrödd Fjólu er skýr og sannfærandi. Flot er efnileg frumraun höfundarins á skáldsagnabrautinni. Það verður spennandi að fylgjast með því sem kemur frá Rebekku Sif í framtíðinni.“
- Melkorka Gunborg Briansdóttir, ​Tengivagninn

Picture

Jarðvegur

Jarðvegur er fyrsta ljóðabók Rebekku Sifjar og kom út í samstarfi við Bókaútgáfu Blekfjelagsins. Ljóðverkið er samfelld frásögn þar ljóðmælandi þarf að takast á við ítrekuð áföll, gífurlega sorg og sársaukann sem fylgir tveimur fósturmissum.
​
„Það býr tónlist í ljóðum Rebekku, á síðunum er taktur sem og í hrynjanda orðanna. Ljóðin eru átakanleg og sönn. Rebekku tekst með meitluðum orðum að ná utan um erfiða reynslu og býður lesanda í ferðalag með sér um missi, ófrjóan jarðveg, átök og að lokum sátt. [...] Hér er á ferð ákaflega falleg bók um fósturmissi, efni sem mætti sannarlega vera meir í umræðunni enda er það reynsla sem margir þekkja. Ég mæli hjartanlega með þessari bók.“
Ragnheiður Harpa Leifsdóttir, svikaskáld
„Virkilega falleg bók sem hreyfir við manni. Erfitt viðfangsefni tæklað á einlægan og fagran hátt.“
​
Bergrún Andradóttir, bókmenntafræðingur
Picture

Gling Gló

Hvað gerist þegar snjallsíminn er tekinn af fjörugri ellefu ára stelpu? Er yfir höfuð hægt að finna sér eitthvað að gera án hans? Eins og þetta sé ekki nógu slæmt, þá getur Elfa ekki spilað leikinn sem allir krakkarnir eru að tala um.

Tímaferðalag, undarleg barnshvörf og óhugnanlegt samsæri kemur meðal annars við sögu í þessari æsispennandi bók. Gling Gló er saga fyrir alla krakka sem elska ævintýralega tölvuleiki og dularfullar ráðgátur. Gæti þessi dáleiðandi tækni kollvarpað tilveru foreldra á litla landinu okkar?



Powered by Create your own unique website with customizable templates.
  • Forsíða
  • Rithöfundur
  • Söngkona
  • Söngkennari
  • Bókanir