Rebekka Sif Stefánsdóttir (f. 1992) er rithöfundur og ljóðskáld. Hún lauk B.A. gráðu í almennri bókmenntafræði árið 2017 og MA gráðu í ritlist við Háskóla Íslands árið 2020. Hún er aðstoðarritstjóri Lestrarklefans og hefur í síðustu ár skrifað þar ógrynni bókmennta-umfjallana. Hún starfar einnig sem stundakennari í ritlist við Háskóla Íslands.
Fyrsta ljóðabók Rebekku, Jarðvegur, kom út haustið 2020 í samstarfi við bókaútgáfu Blekfjelagsins en ljóðabókinni var fagnað fyrir vönduð og áhrifamikil ljóð um sáran fósturmissi. Vorið 2022 kom svo út hennar fyrsta skáldsaga, Flot, hjá bókaforlaginu Króníku. Flot er margslungin skáldsaga þar sem margt dvelur undir yfirborðinu. Hún fékk afbragðsdóma í Morgunblaðinu, Tengivagninum á Rás 1, Vikunni og Lestrarklefanum. Sumarið 2022 kom út hennar önnur skáldsaga, Trúnaður, sem hljóð- og rafbók hjá Storytel. Trúnaður fjallar um brothætt og flókin sambönd fimm ólíkra vinkvenna. Bókin var á topplistanum yfir vinsælustu hljóðbækurnar í tæplega þrjá mánuði sumarið og haustið 2022 og fékk góðar viðtökur frá hlustendum og lesendum á Storytel. Trúnaður fékk einnig fjögurra stjörnu ritdóm hjá Morgunblaðinu. Í október 2022 kom svo út barnabókin Gling Gló sem fjallar um unga stúlku sem hverfur inn í tölvuleik í spjaldtölvunni. |
Einnig hafa smásögur eftir Rebekku birst í ýmsum safnritum, meðal annars smásagnasafninu Möndulhalla (Una útgáfuhús, 2020) og Jólabókum Blekfjelagsins. Hún hefur þáttarstýrt tveimur hlaðvörpum Blekvarpinu, hlaðvarpi meistaranema í ritlist og Bókamerkinu, hlaðvarpi Lestarklefans.